Robertson við Tómas: Erum ekki sáttir

„Við erum augljóslega ekki sáttir við þá stöðu sem við erum í, en við erum í þessu saman og við erum þeir einu sem geta komið okkur út úr þessari stöðu,“ sagði Andy Robertson, leikmaður Liverpool, í samtali við Tómas Þór Þórðarson á Símanum sport.

Liverpool tapaði fjórum deildarleikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni í febrúar, áður en liðið gat loksins fagnað sigri gegn Sheffield United á útivelli í gær. Englandsmeistararnir eru í sjötta sæti deildarinnar, 19 stigum frá toppliði Manchester City. 

Robertson hefur fagnað Englands-, Evrópu- og heimsmeistaratitli með Liverpool síðan hann kom til félagsins frá Hull, en nú er Skotinn að glíma við alvörumótlæti í fyrsta skipti í rauðu treyjunni. 

„Þetta hefur allt verið mjög jákvætt síðan ég kom inn í liðið, en núna erum við að glíma við erfiðleika. Við höfum verið ótrúlega óheppnir með meiðsli en þeir sem eru að spila núna eru nógu góðir til að ná í úrslit fyrir þetta lið. Við þurfum að sýna það og ná í úrslit,“ sagði Robertson.

Fyrsta hlusta af þremur af viðtalinu við Robertson má sjá í spilaranum hér fyrir ofan en mbl.is birtir annan og þriðja hluta viðtalsins fljótlega. Mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samvinnu við Símann sport

mbl.is