Shaw og Solskjær ekki kærðir

Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni á Stamford Bridge í gær.
Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni á Stamford Bridge í gær. AFP

Enska knattspyrnusambandið mun ekki refsa Ole Gunnar Solskjær og Luke Shaw, knattspyrnustjóra Manchester United og leikmanni liðsins, vegna ummæla sem þeir létu falla um Stuart Attwell, dómara leiks United og Chelsea, í gær.

Leiknum lauk með markalausu jafntefli, en United vildi fá víti þegar Callum Hudson-Odoi handlék knöttinn innan teigs. Eftir að hafa skoðað atvikið ákvað Attwell að láta leikinn halda áfram.

Bæði Shaw og Solskjær létu óánægju sína í ljós eftir leik og sökuðu Attwell um að láta utanaðkomandi áhrif hafa áhrif á dómgæsluna, en United hefur fengið mikið af vítaspyrnum á leiktíðinni.

„Ef þetta kallast að hafa höndina í náttúrulegri stöðu þá hlýt ég að vera blindur,“ sagði æstur Solskjær við BBC eftir leikinn. „Við misstum af tveimur stigum út af þessu,“ bætti hann við.

Shaw gekk enn lengra og sakaði dómarann um að dæma ekki vítið, því það yrði of mikið talað um það eftir leik, þar sem United fær mikið af vítaspyrnum.

Knattspyrnusambandið hefur ákveðið að hvorug ummælin stangist á við lög sambandsins og verða þeir því ekki kærðir.

mbl.is