Við höfum ekkert unnið ennþá

Pep Guardiola má vera ánægður með frammistöðu Manchester City undanfarna …
Pep Guardiola má vera ánægður með frammistöðu Manchester City undanfarna mánuði. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að þrátt fyrir ótrúlega sigurgöngu liðsins síðustu mánuði hafi það ekkert unnið ennþá.

Forysta City í ensku úrvalsdeildinni er orðin tólf stig en liðið hefur unnið tuttugu leiki í röð í öllum mótum og sett nýtt met í fjölda sigurleikja í röð í deildinni.

Frá jafnteflisleik við WBA 15. desember hefur City unnið fjórtán úrvalsdeildarleiki, fimm bikarleiki og svo fyrri leikinn við Mönchengladbach í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

„Bayern München er besta liðið í Evrópu því þeir hafa unnið allt. Liverpool er Englandsmeistari og er því besta liðið. Ef þú vilt breyta því þarftu að vinna mótið. Enginn verður meistari í mars,“ sagði Guardiola á fréttamannafundi í dag.

„Það eru enn 36 stig í pottinum og hér á Englandi geta öll lið tapað og tapað mörgum leikjum í röð. Sem lið verðum við að spila vel og hlaupa mikið án bolta til að vinna okkur inn þau stig sem þarf til að vera nærri meistaratitlinum þegar upp er staðið. Við mætum mjög erfiðum andstæðingum á morgun, Úlfunum, og síðan Manchester United, Southampton og svo Fulham sem spilar mjög vel um þessar mundir.

Ef það væru bara 10, 12 eða 15 stig eftir í pottinum væri staðan önnur en 36 stig er mjög mikið,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert