Liverpool og Chelsea sitt á hvorum endanum

Liverpool og Chelsea hafa átt gjörólíku gengi að fagna hvað …
Liverpool og Chelsea hafa átt gjörólíku gengi að fagna hvað varðar meiðsli leikmanna í vetur. AFP

Leikmenn Liverpool hafa misst úr flesta vinnudaga á þessu keppnistímabili í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en leikmenn Chelsea hafa verið við besta heilsu af öllum og hafa misst úr fjórum sinnum færri vinnudaga en kollegar þeirra hjá Liverpool.

Þetta er niðurstaðan í samantekt Sky Sports þar sem fram kemur samanlagður dagafjöldi í forföllum leikmanna vegna meiðsla og veikinda á yfirstandandi tímabili.

Liverpool er þar nánast í sérflokki með 1.029 tapaða vinnudaga á leikmannahópinn á meðan næstóheppnasta liðið, Crystal Palace, er með 861 tapaðan vinnudag.

Chelsea er á hinum endanum en þar hefur heilbrigði leikmanna verið sérlega gott og aðeins hafa tapast 276 vinnudagar í hópnum. Arsenal kemur næst með 354 tapaða vinnudaga.

Svona lítur „stöðutafla“ deildarinnar út í töpuðum vinnudögum, samkvæmt samantekt Sky Sports:

1029 Liverpool
  861 Crystal Palace
  760 Newcastle
  708 Southampton
  683 Sheffield United
  680 Leicester
  670 Burnley
  603 Manchester City
  561 Leeds
  557 Brighton
  554 West Bromwich
  537 Everton
  493 Manchester United
  470 West Ham
  433 Tottenham
  428 Wolves
  425 Aston Villa
  413 Fulham
  354 Arsenal
  276 Chelsea

Eins og staðan er nákvæmlega núna eru Crystal Palace og Leicester með flesta leikmenn fjarverandi vegna meiðsla, níu hvort félag, en Liverpool er næst með átta fjarverandi.

Besta staðan er hjá Arsenal, Manchester City og Tottenham sem eru með einn leikmann meiddan hvert.

mbl.is