Rifust eins og hundur og köttur

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham.
José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham. AFP

Knattspyrnumennirnir fyrrverandi Jamie Redknapp og Roy Keane rifust eins og hundur og köttur í beinni útsendingu hjá sjónvarpsstöðinni Sky Sports á dögunum.

Redknapp var að fara að lýsa leik Tottenham og Burnley sem fram fór á Tottenham Hotspur-vellinum í London á sunnudaginn síðasta en Keane var sérfræðingur í setti ásamt Graeme Souness.

Redknapp, sem lék meðal annars með Liverpool og Tottenham á ferlinum, vildi meina að Tottenham væri með það góðan hóp að liðið ætti ekki að sitja í níunda sæti deildarinnar.

Keane, sem var fyrirliði Manchester United í fjölda ára, var ósáttur við ummæli Redknapp og vildi meina að Tottenham væri í níunda sætinu því þeir væru einfaldlega ekki með betri hóp en þetta.

Þeir skiptust á skoðunum yfir málinu í nokkrar mínútur þar sem hvorugur neitaði að gefa eftir en atvikið var afar neyðarlegt.

mbl.is