Aftur markalaust hjá United

Jordan Ayew og Nemanja Matic í baráttunni í leiknum í …
Jordan Ayew og Nemanja Matic í baráttunni í leiknum í kvöld. AFP

Crystal Palace og Manchester United gerðu markalaust jafntefli þegar þau mættust á Selhurst Park í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Man Utd gerði þar með annað markalausa jafnteflið sitt í röð í deildinni, og sömu sögu er að segja af Palace.

Leikurinn fór rólega af stað en eftir tæplega stundarfjórðung fóru Man Utd að þjarma að Palace. Fyrst átti Nemanja Matic þrumuskot sem stefndi í samskeytin eftir að hafa breytt um stefnu af James McCarthy en Vicente Guaita í marki Palace varði frábærlega í horn.

Upp úr horninu náði Harry Maguire skalla að marki, hann fór í Marcus Rashford og féll fyrir fætur Edinson Cavani sem skóflaði boltanum yfir úr dauðafæri.

Örskömmu síðar fékk Rashford sjálfur tækifæri til þess að koma Man Utd yfir þegar hann fékk góða fyrirgjöf frá Luke Shaw með jörðinni, var kominn í kjörstöðu en skot hans fór naumlega fram hjá markinu.

Þrátt fyrir áhlaup rauðu djöflanna létu mörkin á sér standa og því var markalaust í hálfleik.

Heimamenn í Palace byrjuðu síðari hálfleikinn betur og fengu nokkur fín færi, þeirra best var skot Andros Townsend af D-boganum eftir tæplega klukkutíma leik en fór það rétt fram hjá markinu.

Eftir það fjaraði leikurinn út, þótt Patrick van Aanholt hafi að vísu fengið dauðafæri á 90. mínútu, en skot hans af stuttu færi var varið af Dean Henderson í marki Man Utd, auk þess sem van Aanholt virtist vera talsvert fyrir innan og því hefði VAR væntanlega gripið inn í ef honum hefði tekist að skora.

Ekki gerðist meira markvert í leiknum og markalaust jafntefli því niðurstaðan.

Liðin eru áfram í sömu sætum og fyrir leikinn, Crystal Palace í 13. sæti og Man Utd í öðru sæti.

Crystal Palace 0:0 Man. Utd opna loka
93. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með markalausu jafntefli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert