Solskjær benti á hið augljósa

Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni í kvöld.
Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni í kvöld. AFP

„Þetta voru ekki góð úrslit því þú þarft sigra til þess að mjakast upp töfluna,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, í samtali við Match of the Day eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á Selhurst Park í London í kvöld.

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og í stað þess að minnka forskot Manchester City á toppi deildarinnar í 12 stig er United nú 14 stigum á eftir nágrönnum sínum þegar ellefu umferðir eru eftir af tímabilinu.

„Þú þarft að berjast fyrir þremur stigum og við gerðum það ekki,“ sagði Norðmaðurinn pirraður.

„Við töpuðum boltanum klaufalega og við vorum hægir. Svona hlutir gerast í fótbolta og þegar allt kemur til alls var þetta ekki kvöldið okkar.

Það er vissulega áhyggjuefni að okkur hefur ekki tekist að skora í síðustu tveimur leikjum en á sama tíma hefur okkur líka tekist að halda markinu okkar hreinu sem er jákvætt.

Það vantar smá neista í okkur en ég hef fulla trú á því að hann komi aftur fljótlega. Það var ýmislegt jákvætt í okkar leik og við fengum ágætis tækifæri sem við hefðum getað gert meira út,“ bætti Solskjær við.

mbl.is