Gylfi lagði upp sigurmarkið - Everton í fjórða sæti

Richarlison og Gylfi Þór Sigurðsson fagna markinu á The Hawthorns …
Richarlison og Gylfi Þór Sigurðsson fagna markinu á The Hawthorns í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp sigurmark Everton í kvöld þegar liðið vann útisigur á West Bromwich Albion, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Þetta er annar leikurinn í röð hjá Everton þar sem Gylfi leggur upp sigurmarkið. Hann hóf leik á varamannabekknum í kvöld en var skipt inná á 64. mínútu. Gylfi fór strax og tók hornspyrnu, fékk boltann aftur eftir hana og sendi þá boltann beint á kollinn á Richarlison sem skallaði boltann af markteig í netið.

Gylfi hafði aðeins verið inni á vellinum í 43 sekúndur þegar hann lagði upp markið.

Diagne kom boltanum í mark Everton undir lok uppbótartímans en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Everton lyfti sér með sigrinum uppfyrir West Ham, Chelsea og Liverpool og í fjórða sæti deildarinnar með 46 stig. West Ham er með 45, Chelsea 44 og Liverpool 43. Endi leikur Liverpool og Chelsea í kvöld með jafntefli verður Everton í fjórða sætinu, Meistaradeildarsætinu, að umferðinni lokinni. Annars verður sigurliðið á Anfield í fjórða sæti.

WBA situr áfram í næstneðsta sæti deildarinnar með 17 stig og er níu stigum frá því að komast úr fallsæti.

mbl.is