Hjartnæm kveðja Klopp til Alisson

Alisson og Jürgen Klopp hafa báðir misst foreldri á árinu.
Alisson og Jürgen Klopp hafa báðir misst foreldri á árinu. AFP

Í leikskrá Liverpool fyrir leik liðsins gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í kvöld stakk Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, niður penna til þess að votta Alisson, markverði liðsins, samúð sína eftir sviplegt fráfall föður hans á dögunum.

Í síðustu viku lést hinn 57 ára gamli José Becker þegar hann drukknaði í stöðuvatni í grennd við sumarhús hans í suðurhluta Brasilíu. Alisson spilaði ekki síðasta leik Liverpool, í 2:0-sigri gegn Sheffield United síðastliðna helgi, af þeim sökum.

Hann mun þó snúa aftur í mark liðsins í kvöld og af því tilefni reit Klopp, sem missti sjálfur móður sína í janúar, hjartnæma kveðju til markvarðarins knáa:

„Það hefur verið næsta ómögulegt að tala um þetta opinberlega, einfaldlega of erfitt ef satt skal segja. En kannski er það betra ef ég set orðin niður á blað.

Heimurinn hefur upplifað allt of mikinn missi að undanförnu. Það eru aðrir meðlimir klúbbsins sem hafa upplifað missi. Í Liverpool-borg, í þessu landi og um víða veröld hafa allt of margir þurft að glíma við þá kvöl sem fylgir því að missa manneskju sem er þeim svo kær. Sorg er allt of algeng um þessar mundir.

En fyrir Ali, okkar dásamlega, elskulega og líflega liðsfélaga, var þetta sannarlega hörmulegt. Alla skortir orð til þess að útskýra hvernig þeim líður á svona augnablikum. Ég veit að orð mín eru ekki fullnægjandi.

Þess vegna vil ég í staðinn láta Alisson vita hversu mikið þetta lið og félag elskar hann og fjölskyldu hans. Mesti virðingarvotturinn við föður hans er hvaða mann sonur hans hefur að geyma og er orðinn. Hann heiðrar föður sinn á hverjum degi með því hvernig hann háttar lífi sínu.

Við verðum öll að gefa Ali þann tíma sem hann þarfnast og við verðum einnig að gefa honum rými þegar hann þarf á því að halda. Stuðningsmenn okkar mega vita að hann finnur fyrir ástúð og samhygð þeirra.

Ali er trúaðasta manneskja sem ég hef nokkurn tíma hitt, þannig að hann veit að þeir munu verða sameinaðir á ný til þess að fagna öllum sérstöku minningunum sem hann mun skapa í framtíðinni.

Ég hef notað eftirfarandi frasa, eða einhverja útgáfu af honum, oft áður: „Fótbolti virðist oft mikilvægastur af minnst mikilvægu hlutunum í lífinu.“ Þessi orð finnst mér aftur viðeigandi í kvöld.

Til Ali og allra hinna sem hafa upplifað missi, þessi stórkostlega íþrótt okkar getur enn kallað fram flótta frá hversdagslífinu, orku og gleði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert