Sigurmark frá Mount og söguleg taphrina hjá Liverpool

Chelsea er komið í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir sigur á Liverpool á Anfield, 1:0, í lokaleik 27. umferðarinnar í kvöld.

Chelsea fór þar með uppfyrir Everton og West Ham og er með 47 stig en Liverpool situr nú eftir í sjöunda sætinu með 43 stig.

Chelsea er enn taplaust undir stjórn Thomasar Tuchels í átta leikjum í deildinni og tíu leikjum samtals.

Liverpool setti félagsmet en liðið hefur nú tapað fimm deildaleikjum í röð á Anfield og það hefur ekki gerst áður í sögu félagsins.

Chelsea virtist hafa náð forystunni um miðjan fyrri hálfleik þegar Timo Werner skoraði eftir langa sendingu innfyrir vörn Liverpool. Eftir ítarlega skoðun var hann hinsvegar úrskurðaður rangstæður en það stóð afar tæpt.

Ekkert var hinsvegar athugavert við glæsilegt mark sem Mason Mount skoraði á 42. mínútu. Hann fékk boltann rétt innan vítateigs vinstra megin, lék þvert fyrir vítateiginn, inn að miðjunni, og skoraði með föstu skoti í hægra hornið niðri, 0:1.

Minnstu munaði að Chelsea næði tveggja marka forystu á 54. mínútu þegar Hakim Ziyech átti skot þar sem varnarmaður Liverpool bjargaði á marklínunni.

Þrátt fyrir talsverða pressu á köflum náði Liverpool aldrei að skapa sér virkileg marktækifæri og Mendy í marki Chelsea þurfti að verja í fyrsta skipti á 85. mínútu þegar Georginio Wijnaldum átti skalla beint á hann.

Chelseamenn voru beinskeyttari og Alisson varði vel frá Timo Werner sem slapp inn í vítateiginn í skyndisókn á 77. mínútu.

Liverpool 0:1 Chelsea opna loka
90. mín. Timo Werner (Chelsea) fer af velli
mbl.is