Þreytt að tala um sömu hlutina aftur og aftur

Jürgen Klopp var vonsvikinn í leikslok.
Jürgen Klopp var vonsvikinn í leikslok. AFP

„Spennustigið var hátt og þetta var jafn og spennandi leikur,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, í samtali við BBC Sport eftir 1:0-tap Liverpool gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í kvöld.

Mason Mount skoraði sigurmark leiksins á 42. mínútu en þetta var fimmta tap Liverpool í röð á heimavelli í deildinni, sem er versti árangur félagsins frá upphafi.

„Mér fannst við yfirspila þá á köflum sem er hægara sagt en gert en þeir þröngvuðu okkur í mistök, alveg eins og við þröngvuðum þá í mistök. Munurinn var sá að þeir nýttu sín tækifæri en ekki við.

Það er orðið ansi þreytt að mæta í viðtöl eftir leiki og segja sömu hlutina aftur og aftur en við verðum að halda áfram enda ekkert annað í boði. 

Mason Mount gerði virkilega vel og skoraði laglegt mark eftir einstaklingsframtak en við áttum að verjast miklu betur en við gerðum.

Það eru smáatriðin sem skipta máli í svona stórleikjum og við þurfum að halda áfram að berjast fyrir því sem upp á vantar. Ég hef trú á því að við getum komið til baka enda mikið hungur í leikmannahópnum að snúa þessu gengi við,“ bætti Klopp við.

Klopp tók Mohamed Salah af velli á 62. mínútu og Egyptinn virkaði pirraður með skiptinguna.

„Mér fannst hann vera farinn að gefa aðeins eftir og ég vildi ekki taka neina áhættu með hann.

Það er allt í góðu, það er ég sem tek ákvarðanirnar sem ég tel bestar fyrir liðið,“ sagði Klopp.

mbl.is