Dreymir um Meistaradeildina

Carlo Ancelotti vonast eftir því að komast í Meistaradeild Evrópu …
Carlo Ancelotti vonast eftir því að komast í Meistaradeild Evrópu með Everton. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, viðurkennir að hann og leikmenn hans dreymi um að komast í Meistaradeild Evrópu.

Með 1:0-sigri gegn West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi, þar sem Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á sem varamaður og var búinn að leggja upp sigurmarkið eftir aðeins 43 sekúndur á vellinum, fór Everton upp í fimmta sæti deildarinnar með 46 stig.

Liðið er nú einu stigi á eftir Chelsea sem er í fjórða sætinu, auk þess sem Everton á leik til góða. Fjögur efstu lið ensku úrvalsdeildarinnar komast í Meistaradeildina.

„Í byrjun tímabilsins hefði engum dottið það í hug að Everton yrði á þessum stað eftir 26 leiki. Draumurinn er Meistaradeildin. Það væri frábært að fylgja þessum draumi. Það væri gott skref á ferli allra,“ sagði Ancelotti eftir sigurinn í gærkvöldi.

Hann segir þó enn verk að vinna. „Við erum í baráttunni en við verðum að fórna okkur allt til enda. Það er meiri pressa á okkur því við erum í baráttunni um Evrópusæti. Við viljum vera þar og höfum lagt hart að okkur að vera þar.

Þetta er markmið okkar. Við verðum að stíga aðeins betur upp, við þurfum að færa fleiri fórnir. Ef ég lít á töfluna er ég mjög glaður því staðan er góð en það er ekki komið að enda tímabilsins og við verðum að berjast áfram,“ sagði Ancelotti einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert