VAR er að drepa leikinn

Scott Parker, þjálfari Fulham.
Scott Parker, þjálfari Fulham. AFP

Scott Parker, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Fulham, segir VAR vera að drepa fótboltann.

Í gærkvöldi tapaði Fulham 0:1 í Lundúnaslag gegn Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Eftir um klukkutíma leik virtist Fulham vera búið að jafna metin í 1:1 en VAR dæmdi mark Josh Maja af vegna þess að boltinn fór í höndina á Mario Lemina í aðdragandanum og það þrátt fyrir að hún hafi verið upp við líkama hans.

„Þetta snýr að reglunni, mér finnst hún klikkuð. Ég er að kvarta yfir reglunni. Við viljum að þetta sé skemmtilegasta deild heims með mörgum mörkum. Ég veit ekki hvað Lemina getur gert. Það vantar að nálgast þetta af heilbrigðri skynsemi,“ sagði Parker í samtali við BBC Radio 5 í gærkvöldi.

Samkvæmt reglunni um hendi í ensku úrvalsdeildinni skal ávallt dæma mark af ef boltinn fer í hönd sóknarmanns í aðdraganda þess. Þegar kemur að varnarmönnum mega dómarar þó meta hvert tilvik um sig og því er til að mynda ekki nærri alltaf dæmd vítaspyrna þegar boltinn fer í hönd varnarmanns.

„Við erum að reyna að láta fótbolta vera svo flekklausan og dauðhreinsaðan að það endar á því að verða óraunhæft. Við viljum sjá mörk og spennu en mér þykir leitt að segja það en VAR er að drepa það allt saman. Við missum þessar hráu tilfinningar í tengslum við leikinn sem við elskum út af lífinu,“ bætti Parker við.

Markið sem var dæmt af Fulham má sjá hér:

mbl.is