United batt enda á sigurgöngu City

Luke Shaw fagnar sjaldgæfu marki sínu.
Luke Shaw fagnar sjaldgæfu marki sínu. AFP

Manchester United vann afar sterkan 2:0 útisigur gegn nágrönnum sínum og erkifjendum í Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Ótrúlegri 21 leiks sigurgöngu Man City í öllum keppnum er þar með lokið.

Það dró til tíðinda strax á fyrstu mínútu leiksins. Gabriel Jesus braut þá á Anthony Martial innan teigs og vítaspyrna dæmd. Bruno Fernandes steig á vítapunktinn og skoraði, naumlega þó þar sem Ederson varði boltann inn, en það breytti því ekki að Man Utd var komið með forystu, 0:1.

Skömmu síðar var Luke Shaw nálægt því að tvöfalda forystuna eftir að Joao Cancelo hafði misst boltann innan vítateigs. Skot Shaw var hins vegar beint á Ederson.

Eftir það tók City leikinn yfir en þrátt fyrir að skapa sér nokkur fín færi hafði liðið ekki erindi sem erfiði. Staðan var því 1:0 í hálfleik, Man Utd í vil.

Í síðari hálfleiknum byrjaði City af svipuðum krafti og liðið endaði fyrri hálfleikinn. Rodri átti til að mynda skot á 48. mínútu sem small í þverslánni.

Tveimur mínútum síðar var Man Utd hins vegar búið að tvöfalda forystu sína. Eftir snarpa sókn kom Luke Shaw boltanum á Marcus Rashford, sem lagði hann aftur út á Shaw í vítateignum. Shaw náði svo mjög góðu, lúmsku skoti milli fóta Johns Stones, sem endaði í bláhorninu án þess að Ederson hreyfði legg né lið.

Eftir mark Shaw, sem var aðeins hans þriðja á ferlinum, voru leikmenn Man Utd líklegri til þess að bæta við heldur en City að minnka muninn, þó Phil Foden hafi farið illa að ráði sínu í dauðafæri á 75. mínútu, þegar hann hitti boltann engan veginn og skaut langt framhjá. Pressan jókst aðeins frá City-mönnum eftir færi Foden en allt kom fyrir ekki.

Mörkin urðu því ekki fleiri í leiknum og sterkur tveggja marka sigur gestanna í Man Utd staðreynd.

Með sigrinum endurheimti Man Utd annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar og minnkaði forskot toppliðs Man City niður í 11 stig, sem er þó enn sannarlega með pálmann í höndunum á leiðinni að sínum fimmta úrvalsdeildartitli.

Bruno Fernandes kom Manchester United á bragðið.
Bruno Fernandes kom Manchester United á bragðið. AFP
Man. City 0:2 Man. Utd opna loka
96. mín. Riyad Mahrez (Man. City) á skot sem er varið Henderson ver boltann út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert