Ekkert fær stöðvað Chelsea

Kai Havertz fagnar fyrsta marki Chelsea ásamt liðsfélögum sínum.
Kai Havertz fagnar fyrsta marki Chelsea ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Chelsea styrkti stöðu sína í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar liðið fékk Everton í heimsókn á Stamford Bridge í London í kvöld.

Ben Godfrey varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark um miðjan fyrri háfleik þegar Marcos Alonso átti flotta fyrirgjöf frá vinstri.

Boltinn barst til Kai Havertz sem átti skot sem fór af Godfrey og í netið og staðan því 1:0 í hálfleik.

Jorginho innsiglaði sigur Chelsea með marki úr vítaspyrnu á 65. mínútu. Mateo Kovacic átti þá frábæra stungusendingu á Havertz sem var kominn einn í gegn. Jordan Pickford kom út úr marki sínu, tók Havertz niður, og vítaspyrna dæmd.

Lokatölur því 2:0 á Brúnni í kvöld Chelsea í vil sem var mun sterkari aðilinn í leiknum. Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton og bar fyrirliðabandið, en honum var skipt af velli um miðjan síðari hálfleik.

Chelsea fer með sigrinum í 50 stig og er áfram í fjórða sæti deildarinnar. Everton er í fimmta sætinu með 45 stig, 5 stigum á eftir Chelsea.

Chelsea 2:0 Everton opna loka
90. mín. Timo Werner (Chelsea) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert