Ekki tilbúinn að taka við Liverpool

Steven Gerrard hefur gert frábæra hluti með Rangers í Skotlandi.
Steven Gerrard hefur gert frábæra hluti með Rangers í Skotlandi. AFP

Knattspyrnustjórinn Steven Gerrard er ekki tilbúinn að taka við Englandsmeisturum Liverpool að sögn Marks Lawrensons, fyrrverandi leikmanns liðsins.

Gerrard hefur verið sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá Liverpool undanfarnar vikur en þýski miðillinn Bild greindi frá því að Jürgen Klopp, núverandi stjóri liðsins, gæti látið af störfum hjá félaginu eftir næsta tímabil.

Klopp er með samning við Liverpool sem gildir út tímabilið 2024 en Gerrard gerði Rangers að Skotlandsmeisturum um síðustu helgi en þetta var fyrsti titill félagsins í tíu ár.

„Það er eitt að stýra Rangers og allt annað að stýra Liverpool,“ sagði Lawrenson í samtali við BBC.

„Þetta yrði risastórt skref fyrir Gerrard en það væri mikil áhætta hjá eigendum félagsins, Fenway Sports Group, að ráða Gerrard.

Eflaust væru einhverjir stuðningsmenn Liverpool mjög spenntir fyrir þessu enda hefur Gerrard gert frábæra hluti fyrir Rangers og hann gerði frábæra hluti fyrir Liverpool sem leikmaður.

Það hugsa eflaust einhverjir stuðningsmenn með sér að það yrði betra fyrir hann að taka að sér annað starf í ensku úrvalsdeildinni áður en hann tekur við Liverpool,“ bætti Lawrenson við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert