Erum ekki í sama gæðaflokki

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton.
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton. AFP

„Þeir voru betri og áttu sigurinn skilinn,“ sagði Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, eftir 2:0-tap liðsins gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á Stamford Bridge í kvöld.

Everton var skrefi á eftir Chelsea allan leikinn en Ben Godfrey varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í fyrri hálfleik áður en Jorginho bætti við öðru marki Chelsea úr vítaspyrnu í síðari hálfleik.

„Við vörðumst vel í þrjátíu mínútur og eftir að þeir komust yfir þá varð þetta ansi erfitt enda er Chelsea með frábært lið,“ sagði Ítalinn.

„Leikplanið gekk upp í hálftíma en við sköpuðum lítið. Richarlison fékk ágætisfæri  en við erum ekki í sama gæðaflokki og Chelsea.

Við getum ekki spilað opinn leik gegn liði eins og Chelsea. Við ætluðum okkur að spila eins og við gerðum gegn Liverpool og þar skoruðum við snemma sem hjálpaði mikið.

Við viljum komast í Evrópukeppni á næstu leiktíð og við erum á réttri leið. Þetta verður barátta fram að síðasta leik og þetta tap er enginn heimsendir,“ bætti Ancelotti við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert