Klopp: Ekkert hálfkák hjá Liverpool

Jür­gen Klopp
Jür­gen Klopp AFP

Jür­gen Klopp, knatt­spyrn­u­stjóri Li­verpool, segist vera að upplifa sínar verstu stundir á ferlinum eftir að Englandsmeistararnir töpuðu sínum sjötta heimaleik í röð í gær.

Liverpool varð enskur meistari með 18 stiga mun á síðustu leiktíð og hafði ekki tapað á heimavelli í 68 leikjum í röð áður en þessi taphrina hófst. Liverpool er núna með 43 stig eftir 28 leiki og langt frá toppnum. 

„Ég á ekki alltaf mínar bestu stundir,“ sagði Klopp við BBC eftir tapið gegn Fulham í úrvalsdeildinni í gær og var þá spurður hvort þetta væri með erfiðustu tímum hans á ferlinum. „Ég vildi óska þess að ég gæti sagt nei en jú, þetta er með því versta,“ sagði Þjóðverjinn og bætti við: „Við erum öfgakennt lið, við vorum eins sigursælir og hugsast getur og núna erum við öfgafullir í hina áttina. Við hættum samt ekki að berjast.“

Liverpool er með 43 stig í 8. sæti deildarinnar, 22 stigum frá toppliði Manchester City og þremur stigum frá meistaradeildarsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert