Liverpool keyrði yfir Arsenal í seinni

Diogo Jota skorar fyrsta mark leiksins.
Diogo Jota skorar fyrsta mark leiksins. AFP

Liverpool fór upp um tvö sæti og upp í það fimmta í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld með 3:0-sigri á Arsenal á Emirates-vellinum í London.

Liverpool var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, án þess að ná að brjóta ísinn. James Milner fékk besta færið til þess en enski miðjumaðurinn skaut framhjá úr góðu færi.

Portúgalinn Diogo Jota kom inn á sem varamaður í stöðunni 0:0 á 60. mínútu og hann átti heldur betur eftir að minna á sig. Jota skoraði fyrsta mark leiksins fjórum mínútum síðar er hann skallaði í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Trent Alexander-Arnold.

Fjórum mínútum eftir það var staðan orðin 2:0. Mo Salah fór illa með Gabriel í vörn Arsenal og klobbaði svo Bernd Leno í markinu og skoraði. Jota skoraði sitt annað mark og þriðja mark Liverpool á 82. mínútu með föstu skoti úr teignum eftir vandræðagang í vörn Arsenal og gulltryggði sanngjarnan sigur.

Liverpool er nú með 49 stig, tveimur stigum frá Chelsea í fjórða sæti. Arsenal er í níunda sæti með 42 stig.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Arsenal 0:3 Liverpool opna loka
90. mín. Gabriel (Arsenal) fær gult spjald Togar Jota niður.
mbl.is