Áföll hjá Arsenal

Kieran Tierney liggur þjáður eftir meiðslin sem þvinguðu hann svo …
Kieran Tierney liggur þjáður eftir meiðslin sem þvinguðu hann svo af velli. AFP

Það blæs ekki byrlega hjá enska knattspyrnufélaginu Arsenal þessa páskana en eftir slæmt 3:0-tap gegn Liverpool á heimavelli í úrvalsdeildinni í gær berast nú þær fregnir að tveir leikmanna liðsins gætu verið lengi frá vegna meiðsla.

Arsenal er í níunda sæti deildarinnar með 42 stig og virtist ekki eiga roð í Englandsmeistarana í síðari hálfleik á Emirates-vellinum í gær. Ekki hjálpaði það stöðunni að vinstri bakvörðurinn Kieran Tierney haltraði af velli rétt fyrir hálfleik en hans eigin viðbrögð við hnémeiðslunum virtust segja alla söguna.

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, viðurkenndi á blaðamannafundi eftir leik að Tierney gæti verið frá í einhvern tíma, en hann þurfi þó að undirgangast frekari læknisskoðun. Þá missti miðvörðurinn David Luiz af leiknum vegna hnémeiðsla. Aftur vildi Arteta ekki segja of mikið, en taldi þó líklegt að Brasilíumaðurinn þyrfti að fara í aðgerð.

Arsenal verður því væntanlega án tveggja mikilvægra leikmanna á næstunni en liðið mætir Slavia Prag í Evrópudeildinni næsta fimmtudag og svo Sheffield United í deildinni um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert