Dýrlingarnir sneru taflinu við

Nathan Redmond (t.v.) og Matthew Lowton berjast um boltann á …
Nathan Redmond (t.v.) og Matthew Lowton berjast um boltann á St Mary's í dag. Redmond skoraði sigurmark leiksins. AFP

Southampton vann 3:2-sigur á Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á heimavelli í dag eftir að hafa lent tveimur mörkum undir snemma leiks.

Gestirnir komu sér í vænlega stöðu í fyrri hálfleik með því að skora fyrstu tvö mörk leiksins. Erik Pieters fiskaði vítaspyrnu eftir tíu mínútna leik eftir að Kyle Walker-Peters sparkaði hann niður innan teigs og Chris Wood skoraði af punktinum. Matej Vydra kom gestunum í tveggja marka forystu svo á 28. mínútu með föstu vinstrifótarskoti eftir undirbúning Wood. Eftir þetta vöknuðu heimamenn til lífsins.

Stuart Armstrong minnkaði muninn á 31. mínútu með þrumufleyg utan teigs og staðan var svo 2:2 á 42. mínútu eftir vandræðagang í varnarleik gestanna. Ben Mee átti misheppnaða hreinsun frá eigin vítateig og Danny Ings hirti boltann, kom sér fram fyrir varnarmanninn og skoraði fram hjá Nick Pope í markinu.

Endurkoma Southampton var svo fullkomnuð á 66. mínútu er Nathan Redmond kom liðinu í forystu með skoti úr erfiðri stöðu inn í teig eftir undirbúning Theo Walcott, sem fyrst reyndi skot á markið en Pope varði. Walcott tókst hins vegar að hirða frákastið og koma boltanum á Redmond sem skoraði það sem reyndist sigurmark leiksins.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley og tekinn af velli á 90. mínútu. Með sigrinum fer Southampton í 36 stig og situr í 13. sæti en Burnley er í 15. sætinu með 33 stig, sjö stigum fyrir ofan fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert