Gylfi: Fabinho er mótorinn í þessu liði

Í Vellinum á Símanum Sport í dag sagði Gylfi Einarsson veru Fabinhos á miðjunni vera lykilinn að góðri frammistöðu Liverpool undanfarið. Brasilíumaðurinn átti stórleik á miðjunni í öruggum 3:0-sigri Liverpool gegn Arsenal á Emirates-vellinum í Lundúnum í gærkvöldi.

Eftir afar erfiðan kafla fyrr á árinu virðist Liverpool vera að snúa við blaðinu. Fabinho hefur spilað stóran hluta tímabilsins í miðverði og þrátt fyrir að standa sig yfirleitt vel þar er mikilvægi hans á miðsvæðinu að koma vel í ljós. Ozan Kabak og Nat Phillips hafa verið saman í miðvarðarstöðunum að undanförnu og eru að mynda prýðispar.

„Eitt af því sem er lykilatriði í umskiptum Liverpool, finnst mér, er að hafa Fabinho á miðjunni. Hann gefur liðinu svo mikið þegar hann er á miðjunni. Gerir aðra menn betri í kringum sig. Við sjáum Thiago, hann var flottur með honum í gær. 

Hann [Fabinho] er svo mikill vinnuhestur og er bara það góður leikmaður að hann þarf að vera á miðjunni í staðinn fyrir hafsentinum. Þeir spjara sig ágætlega þar, Kabak er að koma til og Nat Phillips lítur vel út, það er búin að vera stígandi í honum,“ sagði Gylfi í Vellinum í dag.

Umræðu Gylfa, Bjarna Þórs Viðarssonar og Tómasar Þórs Þórðarsonar í heild sinni um Liverpool má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert