Jafnt í leik sem bæði lið þurftu að vinna

Jonjo Shelvey tæklar á eftir Erik Lamela á St. James …
Jonjo Shelvey tæklar á eftir Erik Lamela á St. James Park í dag. AFP

Newcastle og Tottenham skildu jöfn, 2:2, í leik sem bæði lið þurftu að vinna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á St. James Park í dag.

Heimamenn í Newcastle hafa sogast ofan í fallbaráttuna undanfarið en þeir skoruðu fyrsta mark dagsins, Joelinton kom þeim yfir á 28. mínútu eftir sendingu frá Sean Longstaff. Lærisveinar Steve Bruce voru þó ekki lengi í paradís. Harry Kane jafnaði metin tveimur mínútum síðar eftir vandræðagang í vörn Newcastle og fjórum mínútum eftir það var staðan orðin 1:2.

Kane var aftur á ferðinni og skoraði í fjærhornið eftir stungusendingu frá Tanguy Ndombele. Það stefndi svo allt í sigur Tottenham sem hefði þá jafnað Chelsea að stigum í 4. sætinu en heimamenn höfðu ekki sungið sitt síðasta.

Varamaðurinn Joe Willock kreisti fram jöfnunarmark eftir darraðardans í vítateignum en varnarmenn Tottenham höfðu náð að bjarga á línu eftir skalla Miguel Almíron rétt áður. Markið kom stuttu eftir að Kane mistókst að innsigla þrennu sína er hann skaut í stöngina.

Tottenham fer því upp í 5. sæti með 49 stig, tveimur á eftir nágrönnunum í Chelsea, og Newcastle er í 17. sæti, þremur stigum fyrir ofan fallsæti. Það er ljóst að stig gerði lítið fyrir bæði liðin í baráttunni um Meistaradeildarsæti og að forðast fall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert