Solskjær: Hvar er hollustan?

Sergio Agüero.
Sergio Agüero. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir það ekki koma til greina að reyna að fá sóknarmanninn Sergio Agüero til liðs við félagið í sumar er hann yfirgefur nágrannaliðið í Manchester City.

Agüero er marka­hæsti leikmaður í sögu City en hann gekk til liðs við félagið frá Atlético Madríd árið 2011. Framherjinn er orðinn 32 ára en hann hefur skorað 257 mörk fyr­ir fé­lagið í 384 leikj­um. Hann hef­ur verið mikið meidd­ur á yf­ir­stand­andi tíma­bili og aðeins byrjað fjóra leiki í ensku úr­vals­deild­inni og nú er ljóst að hann rær á önnur mið eftir yfirstandandi leiktíð.

Einhverjir enskir fjölmiðlar hafa stungið upp á því að United gæti reynt að klófesta leikmanninn en eins og frægt er þá fékk City framherjann Carlos Teves til sín þegar hann fór frá Manchester United árið 2009. Solskjær segir það ekki koma til greina, enda skiptir hollusta hann máli.

„Þegar ég spilaði fyrir United, ef óvinafélag hefði viljað kaupa mig og ég hefði skipt, hvar er hollustan í því?“ sagði Solskjær við Sky Sports.

„Tryggð skiptir mig miklu máli, ég myndi aldrei búast við því að leikmaður sem hefur spilað í tíu ár fyrir eitt félag vilji allt í einu fara til erkifjendanna.

Ég veit að við erum atvinnumenn, en þegar þú spilar fyrir Manchester United, þá ferðu ekki til City. Það hefur auðvitað gerst en ég hef ekki verið sammála því.“

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP
mbl.is