Kannski kaupum við 100 milljóna leikmann í framtíðinni

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir það mögulegt að félagið kaupi leikmann sem kosti 100 milljónir punda eða meira í framtíðinni.

Á dögunum lét hann hafa það eftir sér að það væri ólíklegt að Man City myndi kaupa framherja í staðinn fyrir Sergio Agüero, sem mun róa á önnur mið þegar samningur hans rennur út í sumar, þar sem verðlagið á toppframherjum gerði félaginu það „ómögulegt“.

Þetta sagði Guardiola þrátt fyrir að Man City sé ríkasta knattspyrnufélag heims ásamt hinu franska París Saint-Germain og hafa ensku meistaraefnin eytt langhæstum fjárhæðum í leikmannakaup undanfarinn rúman áratug.

Þrátt fyrir það er hæsta upphæð sem félagið hefur greitt fyrir einn leikmann enn 65 milljónir punda, sem félagið reiddi af hendi til Leicester City fyrir alsírska vængmanninn Riyad Mahrez.

„Kannski gerist það í framtíðinni þegar félagið ákveður að það sé nauðsynlegt til þess að bæta liðið næstu fimm eða tíu ár.

En fram til þessa hefur félagið, fyrirtækið, stjórnarformaðurinn, íþróttastjórinn, ákveðið að gera það ekki og þess vegna höfum við ekki gert það. Kannski í framtíðinni, ég veit það ekki.“

Man City hefur sterklega verið orðað við Erling Braut Håland, framherja Borussia Dortmund, og kæmi þýska liðið til með að krefjast yfir 100 milljóna punda fyrir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert