Búnir að fá nóg af Mourinho?

José Mourinho horfir vonsvikinn á lokamínúturnar í leik Newcastle og …
José Mourinho horfir vonsvikinn á lokamínúturnar í leik Newcastle og Tottenham. AFP

Leikmenn Tottenham Hotspur eru sagðir vera búnir að fá nóg af knattspyrnustjóranum José Mourinho og hvernig hann kennir þeim stöðugt um þegar úrslit í leikjum falla ekki liðinu í hag.

The Telegraph fjallar ítarlega um þetta í dag og kveðst hafa heimildir fyrir því að mikill órói sé í leikmannahópnum.

Tottenham missti af dýrmætum stigum á páskadag þegar liðið gerði jafntefli, 2:2, við Newcastle en eftir leikinn sagði Mourinho að hann væri ekki með nógu góða leikmenn til að slást um eitt fjögurra efstu sætanna.

„Sami stjórinn, mismunandi leikmenn,“ svaraði hann spurningum fjölmiðla um hvers vegna lið hans hefði enn á ný tapað niður mikilvægum stigum en Mourinho hefur til þessa þótt sérstaklega góður í því að halda fengnum hlut með liðum sínum. Hann hefur ítrekað gefið í skyn að leikmenn Tottenham, sérstaklega varnarmennirnir, séu einfaldlega ekki nógu góðir.

Þá segir The Telegraph að svör Mourinhos varðandi fjarveru Toby Alderweirelds frá leiknum í Newcastle hefðu verið ruglingsleg. Hann hefði svarað því til að Belginn hefði aðeins komið á æfingu daginn fyrir leik í kjölfar landsleikjatarnarinnar.

En blaðið segir að samkvæmt myndskeiðum frá æfingum Tottenham hefði sést að Alderweireld hefði verið á æfingum liðsins á bæði fimmtudag og föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert