Fyrirliði Alberts á leið á Anfield?

Teun Koopmeiners með boltann í leik Hollands gegn Rúmeníu í …
Teun Koopmeiners með boltann í leik Hollands gegn Rúmeníu í úrslitakeppni EM U21 árs liða í síðasta mánuði. AFP

Liverpool gæti leyst Hollending af hólmi með Hollendingi þegar Giorginio Wijnaldum yfirgefur enska félagið í sumar.

Þetta segir ítalski fótboltavefmiðillinn Calciomercato en þar er sagt að Liverpool sé með Teun Koopmeiners, fyrirliða AZ Alkmaar, í sigtinu til að fylla skarð Wijnaldums. Nokkuð ljóst er að sá síðarnefndi hverfur á braut í sumar en viðræður milli hans og Liverpool um nýjan samning hafa ekki gengið upp.

Koopmeiners er 23 ára gamall og hefur í vetur verið einn besti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar og skorað 17 mörk og átt 7 stoðsendingar í 37 leikjum AZ Alkmaar. Hann var þó rekinn af velli snemma leiks gegn Willem II um páskana en Albert Guðmundsson liðsfélagi hans bjargaði þá málunum með því að skora sigurmarkið í 1:0-sigri AZ.

Koopmeiners lék fyrsta A-landsleik sinn fyrir Holland í október á síðasta ári og lék þá við hlið Wijnaldums á miðjunni. Hann er í 21-árs landsliði Hollands sem á dögunum tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert