Nálgast úrvalsdeildina eftir risasigur

Teemu Pukki skoraði þrennu í kvöld.
Teemu Pukki skoraði þrennu í kvöld. AFP

Norwich City er komið í kjörstöðu í baráttunni um sæti í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 7:0-risasigur á heimavelli gegn Huddersfield í kvöld. 

Emiliano Buendía og Teemu Pukki fóru á kostum í leiknum því Pukki skoraði þrjú mörk og lagði upp eitt og Buendía skoraði eitt mark og lagði upp þrjú. 

Pukki skoraði tvö fyrstu mörkin á fyrstu 20 mínútunum, áður en Buendía bætti við því þriðja á 23. mínútu. Todd Cantwell skoraði fjórða markið á 29. mínútu og Kieran Dowell það fimmta á 42. mínútu og var staðan í hálfleik 5:0. 

Pukki fullkomnaði þrennuna með marki úr víti á 61. mínútu, áður en varamaðurinn Jordan Hugill skoraði sjöunda markið aðeins mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður. 

Norwich er í toppsætinu með 87 stig, átta stigum á undan Watford sem er í öðru sæti. Brentford er í þriðja sæti með 70 stig eftir markalaust jafntefli við Birmingham á heimavelli í kvöld, en liðið hefur gert fjögur jafntefli í röð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert