Gáfum þeim færi á að jafna

Leikmenn Arsenal voru daprir í bragði eftir að Slavia jafnaði …
Leikmenn Arsenal voru daprir í bragði eftir að Slavia jafnaði í blálokin í kvöld. AFP

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal sagði eftir jafnteflið gegn Slavia Prag í Evrópudeildinni í kvöld að í Evrópukeppni yrðu menn að nýta góðu marktækifærin.

Leikurinn í London endaði 1:1 þar sem Tékkarnir jöfnuðu eftir hornspyrnu í lok uppbótartímans. Þar með nægir Slavia 0:0-jafntefli í seinni leiknum á heimavelli til að komast í undanúrslit keppninnar.

„Þegar þú færð dauðafæri í Evrópuleik þá verðurðu að nýta þau. Við hefðum verðskuldað meira út úr leiknum en við fengum. Við fórum erfiðu leiðina, skoruðum loksins fyrsta mark leiksins og þurftum bara að standa það af okkur í nokkrar mínútur. Það gerðum við ekki, við gáfum þeim færi með hornspyrnunni, þeir skoruðu og þar með erum við í allt annarri stöðu,“ sagði Arteta við fréttamenn eftir leikinn.

„Ég hef alla trú á að við getum farið til Tékklands, unnið og komist áfram. Annars væri ég ekki hérna. Við verðum að fara þangað með það markmið að skora mörk og vinna leikinn. Við verðum að skora til þess að komast áfram,“ sagði Arteta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert