Ætla ekki að reyna að kaupa Liverpool-manninn

Takumi Minamino fer aftur til Liverpool þegar lánssamningi hans við …
Takumi Minamino fer aftur til Liverpool þegar lánssamningi hans við Southampton lýkur. AFP

Enska knattspyrnuliðið Southampton mun ekki gera tilraun til þess að kaupa Takumi Minamino, japanska sóknarmanninn sem er á láni hjá liðinu frá Liverpool.

Á blaðamannafundi í dag sagði Ralph Hasenhüttl, knattspyrnustjóri Southampton, að engar viðræður um kaup á Minamino hafi átt sér stað. Auk þess viti Hasenhüttl ekki nákvæmlega hvað Liverpool ætlist fyrir með hann að loknu yfirstandandi tímabili.

Southampton er ekki með forkaupsrétt á Minamino eins og tíðkast gjarna þegar lánssamningar eru gerðir. „Samningurinn kvað á um að gefa honum spiltíma á fyrri hluta ársins á meðan hann er hér. Það er það sem við höfum gert til þessa og vonandi fær hann enn meiri spiltíma,“ sagði Hasenhüttl.

Minamino hefur spilað vel fyrir Southampton eftir að hafa komið á láni í lok janúar og kveðst sjálfur hafa endurheimt sjálfstraust sitt eftir að hafa fengið að byrja fimm leiki af þeim sex sem hann hefur spilað og skorað tvö mörk í ensku úrvalsdeildinni með Dýrlingunum.

Úr því kaup á honum eru ekki í umræðunni ætlar Southampton þess í stað að einblína á að reyna að semja við Theo Walcott, sem er á láni hjá liðinu frá Everton. Samningur Walcott við Everton rennur út í sumar og hafa forsvarsmenn Southampton þegar hafið samningaviðræður við hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert