Alhliða sniðganga er eina leiðin

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion.
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion. AFP

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion, segir að eina leiðin til þess að vænta einhvers árangurs í baráttunni gegn kynþáttafordómum á netinu sé alhliða sniðganga allra atvinnufélaganna á Englandi á öllum samfélagsmiðlum.

„Ég myndi vilja sjá öll félögin gera þetta saman. Fyrir mér væri það eina leiðin til að ná fram einhverjum breytingum, ef öll 92 atvinnufélögin stæðu saman.

En það gæti þýtt tekjutap, peningarnir gætu skipt sköpum í þessu því miður, því fjöldi félaga er í miklum fjárhagsvandræðum,“ sagði Allardyce á blaðamannafundi í dag.

Ummæli hans koma í kjölfar þess að enska B-deildarliðið Swansea City ákvað í gær að hætta á öllum samfélagsmiðlum í viku tíma í kjölfar kynþáttaníðs í garð Bens Cabangos, Yans Dhanda og Jamals Lowes, leikmanna liðsins.

Skosku meistararnir í Rangers fylgdu í kjölfarið, en Glen Kamara, leikmaður liðsins, kveðst hafa orðið fyrir kynþáttaníði í leik liðsins gegn Slavia Prag í Evrópudeildinni í síðasta mánuði. Var Ondrej Kudela, leikmaður Slavia, úrskurðaður í bann á meðan verið er að rannsaka ásakanirnar í hans garð.

Gífurlegur fjöldi hörundsdökkra leikmanna í ensku úrvalsdeildinni hefur orðið fyrir kynþáttaníði á tímabilinu.

Má þar nefna sem dæmi Axel Tuanzebe, Marcus Rashford og Anthony Martial hjá Manchester United, Trent Alexander-Arnold, Naby Keita og Sadio Mané hjá Liverpool, Davinson Sánchez hjá Tottenham Hotspur, Romaine Sawyers og Callum Robinson hjá West Bromwich Albion.

Knattspyrnufélög á Bretlandseyjum hafa reynt að skrifa til forsvarsmanna samfélagsmiðla á við Facebook og Twitter og krefjast harðari refsinga í garð þeirra sem viðhafa kynþáttaníð á miðlum þeirra. Forsvarsmennirnir segjast vera að reyna að bregðast við vandanum en virðast ekki vera að gera nóg.

Á meðan staðan er þannig finnst Allardyce rökrétt að gera það sem Swansea, Rangers og franska goðsögnin Thierry Henry hafa gert; að hætta á samfélagsmiðlum í mótmælaskyni.

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion.
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion. AFP
mbl.is