Ekkert mark á Anfield úr opnum leik síðan í desember

Mun Diogo Jota hjálpa Liverpool að komast aftur á beinu …
Mun Diogo Jota hjálpa Liverpool að komast aftur á beinu brautina á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni? AFP

Enska knattspyrnuliðinu Liverpool hefur gengið bölvanlega fyrir framan markið á heimavelli sínum Anfield í ensku úrvalsdeildinni á þessu ári.

Liðið hefur aðeins skorað eitt mark í deildinni á Anfield á árinu, það var vítaspyrnumark Mohamed Salah í 1:4 tapi gegn meistaraefnunum í Manchester City.

Heimaleikirnir í deildinni hafa verið sjö á árinu, þar af hafa sex tapast í röð og sá fyrsti á árinu, gegn Manchester United, endaði með markalausu jafntefli.

Síðasta mark Liverpool úr opnum leik á Anfield kom í 1:1 jafntefli gegn West Bromwich Albion þann 27. desember á síðasta ári þegar Sadio Mané kom heimamönnum á bragðið.

Síðasti leikurinn sem Liverpool vann á heimavelli var svo gegn Tottenham Hotspur, 2:1, þann 16. desember.

Liverpool á heimaleik gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á morgun og freistar þess að lagfæra afleitan heimavallarárangur sinn í deildinni á árinu.

Leikurinn hefst klukkan 14 og verður sýndur í beinni útsendingu á mbl.is á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert