Missir af leiknum við Liverpool vegna bakslags

Jack Grealish hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið.
Jack Grealish hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið. AFP

Jack Grealish, lykilmaður enska knattspyrnuliðsins Aston Villa, meiddist aftur skömmu fyrir leik liðsins gegn Fulham um síðustu helgi og mun missa af leiknum gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Grealish var byrjaður að æfa af fullum krafti eftir að hafa misst af sex leikjum Villa í röð vegna meiðsla á sköflungi. Á léttri æfingu fyrir leikinn gegn Fulham síðastliðinn sunnudag kvartaði hann undan eymslum að nýju og missti því af sjöunda leiknum.

Grealish er enn meiddur og missir einnig af leiknum gegn Liverpool á Anfield á morgun. Hann skoraði síðustu tvö mörkin og lagði upp þrjú önnur í 7:2 stórsigri Villa gegn Liverpool snemma á yfirstandandi tímabili og verður því sárt saknað sem fyrr.

Stefnt er að því að Grealish snúi aftur þegar Villa mætir Everton í ensku úrvalsdeildinni 1. maí næstkomandi, þótt vonir standi til þess að að hann verði klár í slaginn fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert