Sir Alex væri ekki sammála Solskjær

José Mourinho er aðeins byrjaður að skjóta á kollega sinn …
José Mourinho er aðeins byrjaður að skjóta á kollega sinn fyrir stórleik Tottenham og Manchester United á sunnudaginn. AFP

Tottenham og Manchester United mætast á sunnudaginn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og hafa knattspyrnustjórar liðanna verið að ræða við blaðamenn í dag.

Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, segir að ekki eigi að dæma lið hans alfarið út frá því hvort titlar vinnist eða ekki. Norðmaðurinn bíður enn eftir fyrsta bikarnum sem stjóri United en hann tók við í desember 2018.

Hann tók einmitt við af José Mourinho, sem stýrir í dag Tottenham, en Portúgalinn var rekinn frá Manchester-liðinu skömmu áður. Undir stjórn Mourinho vann United bæði enska deildabikarinn og Evrópudeildina og er Portúgalinn ekki sammála kollega sínum.

„Þetta er hans skoðun, en ég er nokkuð viss um að gamli stjórinn hans, Sir Alex Ferguson, væri ekki sammála,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi sínum í dag. „Ég ber virðingu fyrir skoðun Solskjærs en ég er ósammála henni,“ bætti Portúgalinn við.

„En ég endurtek að ég trúi því að stærsti knattspyrnustjórinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hafi aðra skoðun á þessu.“ Mourinho var þar auðvitað að vísa til þess að United náði miklum árangri undir stjórn Ferguson sem lét af störfum árið 2013.

Sir Alex Ferguson vann marga titla með United.
Sir Alex Ferguson vann marga titla með United. AFP
mbl.is