Vill fara til Argentínu

Edinson Cavani
Edinson Cavani AFP

Knattspyrnumaðurinn Edinson Cavani er áhugasamur um að flytja sig aftur til Suður-Ameríku að tímabilinu loknu en hann hefur í vetur spilað með Manchester United á Englandi.

Cavani kom til Manchester á frjálsri sölu eftir að hafa verið í nokkur ár með PSG í frönsku höfuðborginni en Úrúgvæinn kom fyrst til Evrópu árið 2007 er hann samdi við ítalska liðið Palermo.

Marcos Rojo, sem spilaði áður með Manchester United en skipti til Boca Juniors í Argentínu á síðasta ári, segir að Cavani hafi mikinn áhuga á að ganga til liðs við félagið í sumar. „Ég tala mikið við Cavani, við vorum saman í nokkra mánuði í Manchester og eigum í góðu sambandi,“ sagði Rojo við ESPN í heimalandinu Argentínu.

„Hann sagðist hafa áhuga á því að koma til Boca og að hann myndi ræða það við fjölskylduna,“ bætti Rojo við en faðir Cavanis hefur áður sagt son sinn vilja flytja aftur til Suður-Ameríku eftir tímabilið. Úrúgvæinn gerði eins árs samning við United og hefur skorað sjö mörk í 28 leikjum á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert