Leeds vann frækinn sigur á toppliðinu

Stuart Dallas, fyrir miðju, fagnar sigurmarki sínu í dag.
Stuart Dallas, fyrir miðju, fagnar sigurmarki sínu í dag. AFP

Leeds vann frækinn 2:1-sigur á toppliði Manchester City á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Nýliðarnir spiluðu allan síðari hálfleikinn manni færri.

Það voru gestirnir sem tóku forystuna gegn gangi leiksins á 42. mínútu þegar Stuart Dallas skoraði með hnitmiðuðu skoti utan teigs, stöngin og inn. Leeds varð hins vegar fyrir áfalli rétt fyrir hálfleik þegar fyrirliðinn Liam Cooper fékk beint rautt spjald fyrir háskalega tæklingu á Gabriel Jesus.

Það virtist því vera spurning um hvenær, ekki hvort, toppliðið myndi snúa taflinu við en City pressaði stíft nær allan seinni hálfleikinn. Pressan skilaði sér svo með jöfnunarmarki á 76. mínútu, Ferran Torres skoraði það af stuttu færi eftir undirbúning Bernardo Silva.

En tíu Leedsarar voru þó ekki hættir, Dallas skoraði sigurmark á lokamínútu venjulegs leiktíma eftir að Gianni Alioski spilaði hann einan í gegnum vörnina. Manchester City var 70% með boltann og átti alls 29 marktilraunir á móti tveimur. Ótrúleg dramatík og frækinn sigur Leeds sem er nú með 45 stig í 9. sæti.

Manchester City er áfram á toppnum með 74 stig, 14 stigum á undan Manchester United sem á tvo leiki til góða. City þarf 11 stig úr síðustu sex leikjum sínum til að tryggja Englandsmeistaratitilinn.

Stuart Dallas skorar hér markið sem kom Leeds yfir á …
Stuart Dallas skorar hér markið sem kom Leeds yfir á Etihad í dag. AFP
Man. City 1:2 Leeds opna loka
90. mín. Raphinha liggur eftir og fær aðhlynningu. Leeds er með boltann og tíminn er væntanlega búinn.
mbl.is