Berbatov: Hef verið í stöðu Harry Kane

Dimitar Berbatov er Tottenham og Manchester United vel kunnugur enda spilaði Búlgarinn fyrir bæði lið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þau mætast í dag klukkan 15:30.

Berbatov var spurður út í Harry Kane, framherja og fyrirliða Tottenham, en enskir fjölmiðlar segja frá því að hann muni yfirgefa félagið ef því takist ekki að ná í Meistaradeildarsæti. Berbatov fór auðvitað á sínum tíma frá Tottenham til United.

„Ég var Harry Kane, ef svo má segja, ég var í svipaðri stöðu,“ sagði Berbatov við þá Loga Bergmann Eiðsson og Eið Smára Guðjohnsen á Símanum Sport fyrir stórleikinn. „Ef Tottenham vinnur ekki úrslitaleikinn í deildabikarnum eða nær Meistaradeildarsæti þá skil ég alveg ef hann vill fara,“ bætti hann við og ræddi svo nánar leik liðanna í dag.

mbl.is