Mourinho ósáttur við ummæli Solskjærs

Mourinho og Solskjær eftir leik.
Mourinho og Solskjær eftir leik. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, er ósáttur við ummæli Ole Gunnars Solskjær, kollega síns hjá Manchester United, eftir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag. 

Solskjær var mjög ósáttur við Heung-Min Son, leikmann Tottenham, þar sem Son átti sinn þátt í að mark sem Edinson Cavani skoraði var dæmt af. Cavani skoraði í fyrri hálfleik, en stuttu á undan steinlá Son eftir viðskipti við Scott McTominay og eftir skoðun myndbandsdómara var markið dæmt af og aukaspyrna dæmd á McTominay. 

„Ef son­ur minn myndi liggja í gras­inu í þrjár mín­út­ur og þurfa tíu liðsfé­laga til að koma sér á fæt­ur eft­ir svona högg. Ég myndi ekki gefa hon­um að borða eft­ir það!“ sagði Solskjær við Sky, en þessi ummæli fóru fyrir brjóstið á Mourinho.

„Ég er mjög hissa yfir þessum ummælum hjá Solskjær um Sonny. Ég talaði við hann áðan og sagði það við hann. Ef þetta væri ég að segja svona hluti, hver yrðu viðbrögðin? Þetta er mjög lélegt. 

Sonny er mjög heppinn að faðir hans er betri manneskja en Ole. Ég er faðir og þú verður alltaf að gefa börnunum þínum að borða, sama hvað þau gera. Ef þú þarft að stela mat fyrir börnin þín þá gerir þú það. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessi ummæli,“ sagði Mourinho. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert