Þetta er ekki fótbolti lengur

Son Heung-Min fór niður eftir baráttu við McTominay og aukaspyrna …
Son Heung-Min fór niður eftir baráttu við McTominay og aukaspyrna var dæmd. AFP

Sérfræðingar Sky Sports furðuðu sig á því að mark sem Edinson Cavani skoraði fyrir Manchester United gegn Tottenham í fyrri hálfleik í leik liðanna á Tottenham-vellinum í dag hafi ekki staðið. 

Cavani slapp inn fyrir vörn Tottenham og skoraði eftir sendingu frá Paul Pogba en að lokum var markið dæmt af þar sem Scott McTominay var dæmdur brotlegur eftir skoðun í VAR. McTominay fór með höndina í andlitið á Son Heung-Min sem lá lengi eftir. 

„Þetta var vandræðalegt. Þetta er ekki fótbolti lengur því þetta er að eyðileggja leikinn okkar. Ef þetta er brot getum við farið heim. Þetta var fáránleg ákvörðun,“ sagði Micah Richards á Sky.

Roy Keane tók í sama streng. „Dómarinn er undir pressu en þetta er röng ákvörðun og þetta er skammarlegt,“ sagði Keane. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert