Þrjú mörk á sex mínútum sökktu United (myndskeið)

Seint á tímabilinu 2015/2016 var Tottenham Hotspur í harðri toppbaráttu við Leicester City um enska meistaratitilinn í knattspyrnu.

Sterkur 3:0 sigur á Manchester United hélt liðinu kirfilega í þeirri baráttu þegar sex leikjum var ólokið, þótt Leicester hafi á endanum unnið þekkt kraftaverk með því að tryggja sér titilinn nokkru síðar.

Í þessum leik í apríl 2016 var allt í járnum þar til Dele Alli kom Tottenham yfir á 70. mínútu. Toby Alderweireld tvöfaldaði forystuna á 74. mínútu og Érik Lamela rak smiðshöggið á 76. mínútu. Allir þrír eru enn á mála hjá Tottenham.

Mauricio Pochettino og Louis van Gaal voru báðir á sínu öðru tímabili með lið sín, Tottenham og Manchester United, en sá síðarnefndi var rekinn um sumarið 2016 eftir að hafa ekki náð Meistaradeildarsæti, þótt hann hafi skilað enska bikarnum í hús.

Allt það helsta úr þessum frækna sigri Tottenham má sjá í spilaranum hér að ofan.

Totten­ham tek­ur á móti Manchester United í ensku úr­vals­deild­inni í dag. Leik­ur­inn hefst klukk­an 15.30 og verður sýnd­ur í beinni út­send­ingu á Sím­an­um Sport. Upp­hit­un hefst hálf­tíma fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert