Twitter-reikningi lokað eftir níð í garð Sterlings

Raheem Sterling mátti játa sig sigraðan gegn Illan Meslier og …
Raheem Sterling mátti játa sig sigraðan gegn Illan Meslier og samherjum í Leeds. AFP

Samfélagsmiðillinn Twitter lokaði í gær á notanda eftir að viðkomandi skrifaði ósæmilega færslu við tíst frá Raheem Sterling, leikmanni Manchester City og enska landsliðsins í knattspyrnu.

Eftir óvæntan ósigur City gegn Leeds í úrvalsdeildinni í gær, 1:2, skrifaði Sterling á Twitter: „Gleymum þessum leik.“

Ein af athugasemdunum við færsluna innihélt kynþáttaníð í garð Sterlings og við því var brugðist hratt.

„Það er engin þolinmæði gagnvart kynþáttaníði á Twitter og við erum afar einbeitt í þeirri viðleitni að tryggja að umræða um fótbolta á okkar miðli sé örugg fyrir stuðningsmenn, leikmenn og alla aðra sem tengjast íþróttinni,“ sagði talsmaður Twitter við Sky Sports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert