West Ham endurheimti fjórða sætið

Jesse Lingard fagnar hér einu af tveimur mörkum sínum gegn …
Jesse Lingard fagnar hér einu af tveimur mörkum sínum gegn Leicester í dag. AFP

West Ham endurheimti fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með 3:2-sigri á Leicester í leik liðanna í 31. umferðinni í Lundúnum í dag. Heimamenn náðu þriggja marka forystu en lentu þó í erfiðleikum undir lok leiks.

Jesse Lingard hefur leikið á als oddi eftir að hann kom að láni til West Ham frá Manchester United í janúar og það var hann sem skoraði fyrstu tvö mörk leiksins. Fyrst með viðstöðulausu skoti utan teigs eftir sendingu Vladimír Coufal á 29. mínútu og svo bætti hann við marki rétt fyrir hálfleik. Þá renndi hann boltanum í autt markið eftir sendingu Jarrod Bowen sem var sloppinn einn í gegn eftir langa sendingu fram frá Issa Diop.

Staðan varð svo 3:0 á 48. mínútu og virtist leikurinn þá svo gott sem búinn. Jarrod Bowen skoraði sjálfur eftir vandræðagang í vörn Leicester og sendingu frá Tomas Soucek. Gestirnir voru þó ekki búnir að gefast upp og áttu ágætt áhlaup undir lokin.

Kelechi Iheanacho minnkaði muninn á 70. mínútu með skoti utan teigs eftir að Arthur Masuaka missti boltann klaufalega á eigin vallarhelming. Iheanacho bætti svo við marki á lokamínútu venjulegs leiktíma og úr varð mikil spenna. Gestirnir pressuðu stíft síðustu mínúturnar og Wesley Fofana fékk dauðafæri til að kreista fram jöfnunarmark með síðustu snertingu leiksins, skallaði boltann rétt framhjá marki.

West Ham er því aftur í 4. sæti, nú með 55 stig, stigi á undan Chelsea og stigi á eftir Leicester í þriðja sætinu.

Mark Noble sækir að Dennis Praet í Lundúnum í dag.
Mark Noble sækir að Dennis Praet í Lundúnum í dag. AFP
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

West Ham 3:2 Leicester opna loka
90. mín. Leicester fær hornspyrnu
mbl.is