Ætlar að koma Derby í Meistaradeildina

Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby og nýtur fulls stuðnings verðandi …
Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby og nýtur fulls stuðnings verðandi eiganda félagsins. AFP

Erik Alonso, sem er að ganga frá kaupum á enska knattspyrnufélaginu Derby County þessa dagana, kveðst ætla sér að koma félaginu í Meistaradeild Evrópu.

Alonso er 29 ára gamall spænskur viðskiptajöfur sem hefur áður komið að ráðgjöf hjá Sheffield Wednesday. Fyrirtæki hans, No Limits Sports Limited, hefur samið við Mel Morris, fráfarandi eiganda Derby, um kaupin en þau bíða síðan samþykkis frá ensku deildakeppninni.

Derby er í fallbaráttu í B-deildinni og byrjaði yfirstandandi tímabil afar illa en hefur verið á betri leið eftir að Wayne Rooney tók við sem knattspyrnustjóri í nóvember. Það er í 20. sæti af 24 liðum og er sex stigum fyrir ofan fallsæti.

Derby, sem var eitt af tólf stofnfélögum ensku deildakeppninnar árið 1888, varð bikarmeistari 1946, síðan enskur meistari árin 1972 og 1975 og komst í undanúrslit Evrópukeppni meistaraliða árið 1973 en hefur ekki leikið í úrvalsdeildinni frá 2008.

Alonso hefur þegar lýst yfir stuðningi við Wayne Rooney. „Hann var goðsögn sem leikmaður og stendur sig nú afar vel sem þjálfari og hann mun fá allan minn stuðning. Ég hef þegar rætt málin við hann og sagt honum að einbeita sér að því að halda liðinu í deildinni og að því loknu ræðum við um næsta tímabil.

En mitt markmið er að gera Derby að stóru félagi á ný og komast aftur í úrvalsdeildina eins fljótt og mögulegt er. Lokatakmarkið er að komast í Meistaradeild Evrópu. Ég set markið hátt. Ég mun ekki kaupa Lionel Messi eða Cristiano Ronaldo en við verðum að setja saman góðan hóp. Við munum svo sannarlega búa  til lið sem getur barist um að komast aftur í úrvalsdeildina,“ sagði Alonso við BBC í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert