Frábærar fréttir úr herbúðum Liverpool

Jordan Henderson fór meiddur af velli gegn Everton í lok …
Jordan Henderson fór meiddur af velli gegn Everton í lok febrúar og hefur ekki spilað síðan. AFP

Vonir standa til þess að Jordan Henderson, fyrirliði Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu, snúi aftur á næstu vikum eftir nárameiðsli.

Það er James Pearce, blaðamaður hjá The Athletic, sem greinir frá þessu en Henderson hefur verið frá vegna meiðsla síðan 20. febrúar þegar hann fór meiddur af velli í nágrannaslag Liverpool og Everton á Anfield.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Everton en Henderson, sem lék sem miðvörður í leiknum, haltraði af velli í fyrri hálfleik.

Í fyrstu var talið að Henderson myndi missa af restinni af tímabilinu en nú bendir allt til þess að hann geti tekið þátt í lokasprettinum með Liverpool-liðinu.

Liverpool er sem stendur í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 52 stig, þremur stigum frá sæti í Meistaradeildinni, þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert