Laugardagsleikirnir færðir vegna jarðarfararinnar

Filippusar prins var minnst á leikjum helginarinnar, m.a. á Tottenham …
Filippusar prins var minnst á leikjum helginarinnar, m.a. á Tottenham Hotspur Stadium í London þegar Tottenham og Manchester United léku þar í gær. AFP

Allir knattspyrnuleikir á Englandi sem fram áttu að fara um miðjan dag á laugardaginn kemur, 17. apríl, verða færðir til vegna jarðarfarar Filippusar prins sem lést á föstudaginn, 99 ára að aldri. 

Útförin fer fram frá Windsor og enska knattspyrnusambandið óskaði eftir því við félögin í dag að allir leikir sem áttu að vera í gangi á bilinu 13.45 til 15.15 (að íslenskum tíma) verði færðir til.

Aðeins einn leikur í úrvalsdeildinni er fluttur til af þessum sökum. Wolves og Sheffield United áttu að mætast klukkan 14 en sá leikur hefst í staðinn kl. 19.15 um kvöldið. Mikill fjöldi leikja átti að fara fram í neðri deildunum á hefðbundnum tíma á miðjum laugardegi og þeim er ýmist flýtt eða seinkað.

mbl.is