Óvissa hjá Arsenal fyrir Evrópuleikinn

Bukayo Saka haltrar af velli í leik Arsenal gegn Sheffield …
Bukayo Saka haltrar af velli í leik Arsenal gegn Sheffield United í gærkvöld. AFP

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal kveðst ekki vita nógu mikið um það enn sem komið er hvaða leikmenn hann getur notað á fimmtudagskvöldið þegar lið hans mætir Slavia í Prag í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Arsenal varð fyrir talsverðu áfalli í fyrri leiknum þegar Tékkarnir jöfnuðu metin, 1:1, í lok uppbótartímans og náðu þar með afar dýrmætu útivallarmarki. Það þýðir að Arteta og hans menn þurfa að sækja til sigurs í Prag gegn öflugu liði tékknesku meistaranna sem áður slógu út Leicester og Rangers í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar í vetur.

Kieran Tierney, David Luiz, Martin Ödegaard, Emile Smith Rowe og Pierre-Emerick Aubameyang misstu allir af leiknum gegn Sheffield United í gærkvöld, en Arsenal vann hann 3:0. Þá haltraði Bukayo Saka af velli.

Arteta sagði við heimasíðu Arsenal í dag að ljóst væri að Tierney yrði örugglega ekki með og hann reiknaði ekki með Luiz. Óvissa væri með hina og það skýrðist ekki fyrr en liði á vikuna. Ágætar líkur væru þó á því að Aubameyang yrði búinn að hrista af sér veikindi sem komu í veg fyrir að hann gæti spilað og æft síðustu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert