Evrópumeistari á óskalista Tottenham

Jérome Boateng verður samningslaus í sumar.
Jérome Boateng verður samningslaus í sumar. AFP

Jérome Boateng, varnarmaður Evrópu- og Þýskalandsmeistara Bayern München í knattspyrnu, er á óskalista enska úrvalsdeildarfélagsins Tottenham.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en Boateng mun yfirgefa þýska félagið þegar samningur hans rennur út í sumar.

Miðvörðurinn, sem er 32 ára gamall, hefur leikið með Bæjurum frá árinu 2011 en hann gekk til liðs við félagið eftir eitt tímabil í herbúðum Manchester City.

Hann á að baki 356 leiki fyrir Bayern München í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað tíu mörk og þá á hann að baki 76 A-landsleiki.

Hann hefur átta sinnum orðið Þýskalandsmeistari með Bæjurum, fimm sinnum bikarmeistari og tvívegis Evrópumeistari.

mbl.is