Liverpool á leið úr Meistaradeildinni

Jürgen Klopp og Trent Alexander-Arnold fara yfir málin eftir 2:1-sigur …
Jürgen Klopp og Trent Alexander-Arnold fara yfir málin eftir 2:1-sigur Liverpool gegn Aston Villa á Anfield um síðustu helgi. AFP

Gary Neville, sparkspekingur hjá sjónvarpsstöðinni Sky Sports, hefur enga trú á því að Liverpool takist að komast áfram í undanúrslit Meistaradeildarinnar í knattspyrnu í ár.

Liverpool tekur á móti Real Madrid í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum keppninnar á Anfield á morgun en fyrri leik liðanna á Spáni lauk með 3:1-sigri Real Madrid.

Liverpool var langt frá sínu besta í leiknum á Spáni og þá hefur gengi liðsins á heimavelli verið afleitt á tímabilinu.

„Þeir voru arfaslakir í Madríd og verkefnið er svo sannarlega ærið,“ sagði Neville í hlaðvarpsþætti sínum.

„Ég veit ekki hvort Liverpool takist að slá Real Madrid úr leik, sérstaklega ef við horfum til þess að leikurinn er á Anfield þar sem þeir hafa ekki spilað vel á tímabilinu.

Þeir voru meira að segja í vandræðum gegn Aston Villa og rétt náðu að kreista fram sigur á lokamínútunum.

Þetta væri önnur saga ef stuðningsmenn liðsins væru á vellinum en ég tel að Liverpool sé á leið úr Meistaradeildinni,“ bætti Neville við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert