Hún var of léttklædd fyrir íranskt sjónvarp

Sian Massey-Ellis hefur verið aðstoðardómari á fjölda leikja í ensku …
Sian Massey-Ellis hefur verið aðstoðardómari á fjölda leikja í ensku úrvalsdeildinni undanfarin ár. AFP

Sian Massey-Ellis var aðstoðardómari á leik Tottenham og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um síðustu helgi en samt sást hún ekki í útsendingu frá leiknum sem sýnd var í Íran.

Í hvert skipti sem sjónvarpsvélararnar beindust að Massey-Ellis skiptu tæknimenn íranska sjónvarpsins umsvifalaust yfir á loftmyndir af leikvanginum. Samkvæmt Daily Mail gerðist þetta í meira en eitt hundrað skipti í útsendingunni.

Sian Massey-Ellis er eina konan sem dæmir reglulega í ensku úrvalsdeildinni og hefur gert það undanfarin ár.

Blaðið segir að ástæðan fyrir þessu framferði írönsku sjónvarpsmannanna sé sú að Massey-Ellis hafi verið of léttklædd fyrir íranskt sjónvarp en hún var í stuttermatreyju og stuttbuxum að hætti aðstoðardómara.

Aðeins eru tvö ár síðan Íran steig það stóra skref að leyfa konum að mæta á knattspyrnuleiki í fyrsta skipti frá árinu 1981.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert