Rauði liturinn truflar Manchester United

Rauði liturinn kom ekki í veg fyrir að Marcus Rashford …
Rauði liturinn kom ekki í veg fyrir að Marcus Rashford skoraði þetta mark gegn Brighton. AFP

Rautt hefur til þessa verið einkennislitur enska knattspyrnufélagsins Manchester United en nú á að draga verulega úr honum til þess að reyna að bæta árangur liðsins á heimavelli sínum, Old Trafford.

Manchester United hefur gengið mikið betur á útivöllum en á heimavelli á yfirstandandi keppnistímabili þar sem leikið hefur verið án áhorfenda. Til að auð sæti gapi ekki við leikmönnum og sjónvarpsmyndavélum hafa stórir rauðir borðar með merki og slagorði félagsins verið breiddir yfir áhorfendastúkurnar.

Svo virðist sem rauði liturinn á þeim hafi haft truflandi áhrif á leikmenn Manchester United því nú á að skipta alveg um borða og hafa þá svarta í staðinn.

„Við höfum skoðað þetta vel. Þetta ætti ekki að skipta máli, en nokkrir leikmannanna hafa bent á að þegar þeir þurfi að taka ákvörðun á sekúndubroti inni á vellinum og líti snögglega við til að svipast um eftir samherjum, þá sjáist rauðu treyjurnar illa þar sem rauði liturinn er svo áberandi í bakgrunninum. Þið munuð sjá breytingu, borðarnir verða ekki lengur rauðir,“ segir knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær.

Manchester United hefur unnið 13 og tapað sex af 24 heimaleikjum sínum á þessu tímabili. Í útileikjunum hefur liðið hinsvegar innbyrt 17 sigra í 26 leikjum og aðeins tapað þrisvar.

mbl.is